Seinnipart kynningardagsins var söngkeppni nemendafélagsins Mímis, Blítt og létt, haldin í Íþróttahúsi Bláskógabyggðar á Laugarvatni. Keppnin var hin glæsilegasta og umgjörð öll sem nemendur ML sköpuðu sérlega fagmannleg.  Nemendur ML og grunnskólanna, fjölmargir foreldrar og starfsmenn sem og íbúar víða að fjölmenntu á viðburðinn.

Tíu söngatriði kepptu um Hljóðkútinn svonefnda, verðlaunagrip Blítt og létt. Hljómsveit atvinnumanna lék undir flest laganna en í nokkrum þeirra voru það nemendur ML sem sáu um undirleik. Kynnar voru að venju nemendur útskrifaðir vorið áður. Í ár voru það þau Sunneva Björk Helgadóttir og Sigurður Pétur Jóhannsson, sem fóru á kostum. Hlutverk dómara keppninnar, þeirra Karls Hallgrímssonar, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og  og Árna  Hjaltasonar, var erfitt því sérhvert atriði var verðlauna virði.   En að lokum urðu úrslitin þessi:

Skemmtilegasta atriðið:

ÞUNGAVIGTARMENN, þeir Ástráður Unnar Sigurðsson á hljómborð, Halldór Friðrik Unnsteinsson á trommur, Hörður Freyr Þórarinsson á bassa, Sölvi Rúnar Þórarinsson á rafmagnsgítar og Hermundur Hannesson söng og spilaði á gítar, allir nemendur úr þriðja bekk, en þeir fluttu lagið „Leðurspáin“ með hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir.

Þriðja sæti:

RIDDARARADDIR, Þröstur Fannar Georgsson spilaði á gítar, Almar Máni Þorsteinsson spilaði á bassa og Karen Hekla Grönli söng, öll nemendur í fyrsta bekk, en þau fluttu lagið „Toxic“ með Melanie Martinez.

Annað sæti:

Glódís Pálmadóttir úr þriðja bekk flutti lagið „Arms“ með Cristina Perri við undirleik húshljómsveitarinnar.

Fyrsta sæti, sigurvegararnir, handhafar Hljóðkútsins í ár:

Ljósbrá Loftsdóttir og Laufey Helga Ragnheiðardóttir nemendur í öðrum bekk fluttu frumsamt lag, „Can‘t hold it on“ við undirleik hljómsveitarinnar.

Meðfylgjandi myndir tók Ívar Sæland ljósmyndari

VS

Viltu deila...
Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter