Núverandi skólahúsnæði skólans hefur verið byggt í nokkrum áföngum.  Byrjað var að byggja elsta hluta hússins árið 1948 eftir teikningu frá Guðjóni Samúelssyni.  Sú bygging er þrjár hæðir og er þar matsalur og kennslustofur. Á efstu hæð þeirrar byggingar eru nú skrifstofur og vinnuaðstaða kennara, en voru áður heimavistarherbergi skólans.  Árin 1972-73 var tekin í notkun viðbygging sem rúmaði raungreinakennslu og fyrirlestrarsal.  Árið 1996 var svo byggt ofan á þá viðbyggingu og er þar nú heimavistarherbergi elstu nemenda skólans svokölluð Fjarvist.

Kennsla við skólann fer að mestu leiti fram í aðalbyggingu skólans, þar eru rúmgóðar kennslustofur og aðstaða góð til kennslu.

Kennslu- og námsaðstaða

Aðstaða til heimanáms nemenda er á heima­vistar­herbergjum og í bókasafni skólans.  Kennslustofur skólans eru opnar nemendum til afnota við nám sitt til kl. 23 á kvöldin.

Að jafnaði hefur hver grein sína kennslustofu og bera stofurnar flestar nafn sitt af því.