Heilsueflandi MobileMánudaginn 27.  nóvember skunduðu þær Lára Hreinsdóttir náms- og starfsráðgjafi og Karen Dögg BryndísarogKarlsdóttir kennari á málþing um geðheilbrigði og vellíðan framhaldskólanema. Málþingið var haldið í Borgum, safnaðarheimili í Kópavogi og stóð frá klukkan 12.30 til 17.00. Það sem helst bar á góma er sú staðreynd að á sama tíma og okkur hefur tekist að minnka drykkju og neyslu ungmenna í landinu þá líður þeim almennt verr. Geðheilbrigði ungs fólks á Íslandi fer því hrakandi. Þau upplifa meira kvíða og þunglyndi en áður sem á sér auðvitað margar skýringar, ein skýringin er meira álag og hærri lífsstíls viðmið í samfélaginu í dag. Eitthvað af þessu má einnig skýra með því að fólk leitar sér frekar aðstoðar í dag vegna opinnar umræðu og því er skráning á vandamálunum einfaldlega meiri sem er jákvætt í sjálfu sér.  

 

Ýmsir sérfræðingar tóku til máls og má þar nefna Sigrúnu Daníelsdóttur frá Embætti landlæknis, Bóas Valdórsson sálfræðing við MH og Kristjönu Stellu Blöndal dósent við Háskóla Íslands. Hún fjallaði um margbreytileika brotthvarfs nemenda sem er vissulega áhyggjuefni hér á landi. Það sem stóð svo upp úr málþinginu var án efa að heyra raddir ungs fólks í lokin á pallborðsumræðum. Hávær var krafa þeirra um að hafa sálfræðing til staðar í skólum landsins. Ýmsir aðrir fagaðilar, eins og hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar og náms- og starfsráðgjafar sinna  þjónustu við nemendur en þó ekki á sama hátt og sálfræðingar. Einn nemandi sagði frá því að hann hefði komið til námsráðgjafa eftir langa einangrun og sagt frá því hann væri í sjálfsvígshugleiðingum, hann var sendur heim með frjálsa mætingu. Mikil mildi að hann lét ekki verða af þeim hugleiðingum. Eitt er alveg víst að við þurfum að taka geðheilbrigði nemenda okkar alvarlega.

 

Erindin eru aðgengileg á fésbókarsíðu Heilsueflandi framhaldsskóla:

 

https://www.facebook.com/heilsueflandiframhaldsskoli/