captureÍ reglugerðum um framhaldsskóla er gert ráð fyrir að reglulega sé gerð úttekt á starfsemi þeirra. Þetta skólaárið eru tveir framhaldsskólar teknir út og er Menntaskólinn að Laugarvatni annar þeirra.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur að úttektinni og eru það fulltrúar frá ráðgjafafyrirtækinu Attentus ehf. sem sjá um hana fyrir hönd ráðuneytisins.  Því eru þær Árný Elíasdóttir og Anna Sigurðardóttir staddar hér í dalnum fagra, funda með stjórnendum, starfsmönnum, nemendum, foreldraráði og skólanefnd í hinum ýmsu rýnihópum.

 

Skýrslur skólans og upplýsingar allar liggja uppi á borðinu, heimasíðan og upplýsingar þar einnig fyrir utan hið talaða mál.

 Markmið úttektarinnar er að leggja mat á starfsemi skólans með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og veita almennt upplýsingar um starfsemi skólans. Í úttektinni er m.a. lagt mat á eftirtalda þætti:

  • Stjórnun og rekstur.
  • Skólanámskrá.
  • Nám og kennslu.
  • Innra mat.
  • Skólabrag og samskipti.
  • Samstarf við foreldra.
  • Sérþarfir nemenda.

 

Hph