Hver bekkur hefur sinn umsjónarkennara sem skipuleggur fastan vikulegan umsjónartíma bekkjarins. Hver nemandi fær eitt einstaklingsviðtal við umsjónarkennara sinn á önn þar sem hugað er að gengi í náminu, líðan í skólanum, á vistinni og félagslegri stöðu. Ef sérstök ástæða er til er umsjónarnemandi kallaður í aukaviðtal og nemendur geta alltaf leitað til síns umsjónarkennara. Hvatt er til góðra samskipta á milli umsjónarkennara og foreldra/forráðamanna ólögráða nemenda.

Umsjónarkennari er talsmaður nemenda gagnvart skólayfirvöldum og öðrum kennurum. Hann leggur sig fram um að öðlast traust nemenda og kemur spurningum þeirra eða athugasemdum á framfæri og fylgir þeim eftir, eftir eðli máls hverju sinni. Námstækni, lífsstíll og samskipti eru meðal þess sem er gjarnan tekið fyrir í umsjónartímum. Umsjónarkennarinn hefur líka það hlutverk að tryggja bekknum fræðslu um ýmis hagnýt mál sem snerta skólagönguna, svo sem reglur, tæknimál, skipulag og þjónustu.  

Á listanum yfir starfsfólk skólans kemur fram hver er umsjónarkennari hvers bekkjar. Þar má einnig finna upplýsingar um viðtalstíma og tölvupóstföng kennara