1. grein

Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara.  Skólameistari felur húsbónda daglega stjórn heimavistar.  Húsbóndi hefur sér til aðstoðar vistarvörð og húsfreyju.
Heimavistin er heimili nemenda og skulu þeir njóta heimilisfriðar að fullu.  Markmið heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og eðlileg lífsskilyrði.

2. grein

Það er einn heimavistarstjóri úr hópi nemenda í hverri húsálmu, nú 5, og kjósa íbúarnir hann á fyrsta vistarfundi, sem húsbóndi á heimavist boðar til innan þriggja vikna frá skólabyrjun.

3. grein

Vistarvörður læsir heimavistum kl. 23:00.  Á prófatíma er húsum lokað kl. 22:00.  Eftir lokun skal ríkja alger kyrrð og svefnfriður.
Engum óviðkomandi er heimilt að dveljast á heimavistum nema með leyfi húsbónda.
Ósk um leyfi fyrir dvalargest þarf að berast húsbónda með, að lágmarki, sólarhrings fyrirvara.  Gestgjafi er ábyrgur gjörða gesta sinna meðan þeir dveljast í húsnæði skólans eða á lóð hans, enda hlíta gestirnir sömu reglum og hann.

4. grein

Vistarbúi fær inni á tilteknu herbergi við innritun. Honum er óheimilt að flytja milli herbergja án leyfis húsbónda.  Flutningur á húsgögnum milli herbergja eða í og úr setustofum, er ekki leyfður.
Vistarbúum ber að halda herbergjum hreinum og ganga vel um þau og aðrar vistarverur.

5. grein

Reykingar eru bannaðar í skólahúsi, á heimavistum, við húsakynni skólans og á lóð hans.  Samskonar bann er við notkun rafretta, munn- og neftóbaks.

6. grein

Ölvun, meðferð, dreifing og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð, sbr. lög nr. 75/1998, 4. gr., liðir a), b) og c) svo og 18. gr. sömu laga.  Bann þetta nær til alls húsnæðis skólans, lóðar hans og farartækja sem þar kunna að vera. Áfengisumbúðir eru bannaðar á heimavistarherbergjum.
Ef grunur vaknar um geymslu á áfengi eða ólöglegum vímuefnum, hafa húsbóndi/húsfreyja/vistarvörður/skólameistari/staðgengill skólameistara, rétt til inngöngu í heimavistarherbergi til að rannsaka skápa og hirslur, að viðstöddum íbúum herbergisins. Ef rökstuddur grunur er og brýna nauðsyn ber til, eiga sömu aðilar rétt til inngöngu að íbúum herbergisins fjarstöddum, en að viðstöddum stallara eða fulltrúa hans.

7. grein

Vakni grunur um meðferð og/eða neyslu ólöglegra vímuefna hjá nemanda, geta skólayfirvöld farið fram á að hann undirgangist vímuefnapróf.  Neiti nemandinn að undirgangast vímuefnapróf varðar það brottvikningu af heimavist.

8. grein

Ekki má valda ónæði með hávaða vegna notkunar hljómflutningstækja.  Eftir kl. 23:00 er notkun slíkra tækja takmörkuð við einstaklingsnot (höfuðtól) alla daga.  Á prófatíma skal vera algjört næði milli kl. 14:00 og 18:00.  Sérhver íbúi heimavistarinnar á rétt á því að tilmælum hans um betra næði sé tafarlaust hlýtt.

9. grein

Fari lögráða vistarbúi út, eða komi á vist eftir lokun, er honum skylt að láta húsbónda, vistarvörð eða húsfreyju vita.
Ólögráða heimavistarnemendur mega ekki yfirgefa staðinn nema með vitund og samþykki húsbónda/vistarvarðar/húsfreyju eða foreldris/forráðamanns, sem ber þá að láta vistargæslufólk vita.

10. grein

Vistarbúar mega ekki hafa með sér í heimavist neitt það er slysahætta stafar af, svo sem vopn af hvaða tagi sem er.
Notkun raftækja umfram það sem venjulegt er meðal ungs fólks (s.s. tölva, hljómflutningstæki, sjónvarp) er háð leyfi húsbónda.
Öll eldunartæki eru óheimil svo og notkun opins elds.
Valdi vistarbúi eða gestur hans skemmdum á heimavistarhúsum eða húsmunum er honum skylt að bæta þær að fullu skv. mati umsjónarmanns fasteigna.
Skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum vistarbúa.

11. grein

Einelti er ekki liðið í skólanum.  Hér telst einnig með rafrænt einelti. Nemandi eða nemendur sem verða uppvísir að slíku, fá áminningu, tiltal, tímabundna eða endanlega brottvikningu af heimavist eða úr skóla, allt eftir alvarleika máls.

12. grein

Viðurlög við brotum á heimavistarreglum þessum eru í samræmi við ákvæði áminningarkerfis.  Við alvarlegri brot, þ.m.t. brot á 6. grein, geta skólameistari eða aðstoðarskólameistari í umboði hans, vísað nemanda af heimavist og einnig úr skóla tafar- og skilyrðislaust.

13. grein

Reglur þessar taka gildi frá 1. ágúst, 2012 og falla þar með úr gildi eldri heimavistarreglur.  Endurskoðun heimavistarreglna getur farið fram hvenær sem er í skólaráði.

Samþykkt í skólaráði 1. desember, 2015