Nýnemar mæta í skólann á mánudegi skv. skóladagatali kl. 13:00 og þá fá þeir, sem verða á heimavist, lykla að herbergjum sínum.  Stjórnendur og starfsfólk skólans halda fund með foreldrum/forráðamönnum í matsal skólans klukkan 14:00 sama dag.

Stjórn nemendafélagsins Mímis sýnir nemendum skólahúsnæðið og nágrenni skólans, ásamt því að kynna starfsemi nemendafélagsins og félagslíf innan skólans.

 

Nýnemadagur

Þriðjudagurinn er skipulagður þannig að fyrir hádegi er nýnemum kynnt ýmislegt það sem er mikilvægt að þeir viti og kunni um námið, reglur og starf skólans. Eftir hádegið er síðan skipulögð dagskrá þar sem nýnemum gefst færi á að kynnast innbyrðis.

Nýnemar eru einir á staðnum þar til síðdegis á þriðjudegi, þegar þeir eldri fara að tínast á staðinn.

 

Skólasetning

Að morgni miðvikudags er formleg skólasetning og kennsla hefst strax að henni lokinni.

 

Fyrsta vikan

Fyrstu dagarnir í skólanum er viðburðaríkir. Það er mörgu að kynnast og margt að upplifa, en eins og ávallt er námið í fyrsta sæti.

Nemendur annars og þriðju bekkja taka á móti nýnemum með hinum ýmsu skemmtilegheitum, dansi, leikjum og allra handa sprelli.

Rúsínan í pylsuenda nýnemaviku er gleðigangan svokallaða, sem fer á undan hefðbundinni skírn nýnema í Laugarvatni.