Staður og saga

//Staður og saga
Staður og saga2018-04-04T14:11:37+00:00

Laugarvatn og nágrenni

Skólinn er við Laugarvatn í Árnessýslu. Til höfuðborgarsvæðisins er aðeins um klukku­stundar akstur (90 km). Þá er stutt á þéttbýlis­staði eins og Selfoss, Hveragerði, Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn (35-50 km), Hellu (75 km) og Hvolsvöll (85 km). Miklir merkisstaðir úr sögu þjóðarinnar eru í næsta nágrenni – Þing­vellir (20 km), Skálholt (25 km).

Laugarvatn hefur mikla sérstöðu vegna þess skólasamfélags sem þróast hefur á staðnum lungann úr 20. öldinni. Þéttbýli fór að myndast á Laugarvatni eftir að þar var byggður héraðsskóli árið 1928. Þar er jarðhiti og því sundlaug og gufubað byggt yfir hver. Þar er einnig verslun með póstafgreiðslu og hraðbankaþjónusta. Þar eru nú starfandi leikskóli, grunnskóli, menntaskóli og Íþróttafræðasetur KHÍ. Húsnæði menntaskólans og íþróttafræðasetursins er nýtt fyrir hótelrekstur á sumrin. Íþróttamiðstöð Íslands er starfrækt á Laugarvatni.

Á Laugarvatni er mikil ferðaþjónusta á sumrin og í vaxandi mæli einnig á veturna.

Sveitafélagið Bláskógabyggð

Bláskógabyggð varð til með sameiningu þriggja sveitarfélaga 25. maí 2002, Biskupstungna-, Laugardals- og Þingvallahrepps.

Biskupstungur

Tvær ár, Brúará vestan megin og Hvítá austanmegin, afmarka það svæði sem Biskupstungur ná yfir. Þriðja áin, Tungufljót rennur eftir sveitinni miðri og þannig myndast tvær tungur, eystri tunga og vestri tunga. Afréttur er norðan byggðarinnar, allt að vatnaskilum á Kili.

Landslag í sveitinni er fjölbreytt, óvenju mikið er um trjágróður einkum í fjallshlíðum og í og við þéttbýlisstaði.

Í sveitinni eru margir þekktir staðir. Þekktastir eru Gullfoss, Geysir, Haukadalur, Skálholt og Bræðratunga. Brúarárskörð eru á mörkum Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps, Hagavatn er við Langjökul og Brúarhlöð á mörkum Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps. Á afréttinum eru tvö svæði á náttúruminjaskrá, Hvítárvatn og Hvítárnes annars vegar og Þjófadalir og Jökulkrókur hins vegar. Þá er tvö votlendissvæði í byggð á náttúruminjaskrá: Pollengi og Tunguey annars vegar og Haukadalur og Almenningur hins vegar. Gullfoss og Geysir eru friðaðir.

Íbúar sveitarinnar er um 520 og eru helstu atvinnugreinarnar hefðbundinn landbúnaður og garðyrkja. Þjónusta við ferðamenn hefur farið mjög vaxandi.

Víða í sveitinni er jarðhita að finna og háhiti er á tveim stöðum. Langstærstur hluti heimila, fyrirtækja og sumarhúsa í sveitinni er kyntur með jarðhita. Í kringum öflugustu jarðhitasvæðin hafa myndast þéttbýliskjarnar og þar er garðyrkja aðal atvinnugreinin. Stærstir þeirra eru Laugarás, en þar er einnig stunduð mikil ferðaþjónusta, verslun og þar er að finna læknasetur uppsveitanna og Reykholt þar sem grunnskóli og leikskóli eru auk félagsheimilis, sundlaugar og verslunar og íbúða fyrir aldraða.

Í félagsheimilinu fer fram umfangsmikil félagsstarfsemi á vetrum.

Í Skálholti er skóli sem er nýttur að mestu til námskeiðahalds, en þar er einnig sumarhótel.

Kirkjur eru fjórar í sveitinni, í Bræðratungu, á Torfastöðum, í Haukadal og í Skálholti.

Laugardalur

Sveitarmörk eru um Brúará, Apavatn og Apá að austan og sunnan, en Lyngdalsheiði að vestan. Afréttur er ofan byggðarinnar og þar rísa tignarleg fjöll með skógi vaxnar hlíðar.

Þekktustu staðir sveitarinnar eru Vígðalaug á Laugarvatni, stöðuvötnin Laugarvatn og Apavatn, Laugarvatnshellar í Reyðarbarmi og Stóragilshellir í Laugarvatnsfjalli. Brúarárskörð eru á náttúruminjaskrá og sama er að segja um Laugarvatn.

Íbúar eru um 230.  Aðalatvinnuvegir eru landbúnaður, iðnaður og þjónusta, bæði við heimamenn og ferðamenn svo og kennslustörf við skólana á Laugarvatni.

Kirkja er í Miðdal.

Jarðhiti er á nokkrum stöðum í sveitinni og því starfræktar gróðrarstöðvar. Hitaveita liggur að Hjálmsstöðum og á nærliggjandi sumarbústaðasvæði frá Laugarvatni. Golfvöllur er í Miðdal.

Þingvallasveit

Þingvellir, sögufrægasti staður landsins, er í hjarta Þingvallasveitarinnar. Þar ber Almannagjá hæst og hinn forna þingstað við Öxará. Þingvallaþjóðgarður hefur verið friðaður frá 1928 og er hann í umsjá Þingvallanefndar.

Landslag í Þingvallasveit er mjög ólíkt landslagi annars staðar á Suðurlandi. Þingvallavatn og kjarri vaxin hraunin umhverfis með djúpum misgengisgjám og tignarleg móbergsfjöll, setja sérstakan svip á landslagið. Í vesturhluta sveitarinnar skiptist á þurrlendi og votlendi.

Í Þingvallasveit eru um 45 íbúar. Segja má að byggðin skiptist í þrjú svæði. Tvö býli eru austan við vatnið, Miðfell og Mjóanes, næst kemur Þingvallabærinn og í vestur átt þaðan koma Brúsastaðir og Kárastaðir norðan við þjóðveginn. Skálabrekka og Heiðarbær I og II eru við vestanvert Þingvallavatn, þá eru tvö býli við Kjósaskarðsveg, Fellsendi að vestanverðu og Stíflisdalur að norðanverðu. Í Þingavallasveit eru um 450 sumarhús, og fjölgar því íbúum svæðisins mjög yfir sumartímann.

Aðalatvinnuvegur er landbúnaður, einnig skapast töluverð vinna vegna mikils fjölda ferðamanna, svo sem rekstur Þjónustumiðstöðvarinnar í þjóðgarðinum. All nokkur hluti íbúanna vinnur í þjóðgarðinum yfir sumartímann, þá er líka nokkur þjónusta við sumarhúsafólk. Heimamenn eru með rekstur útsýnisferju á Þingavallavatni. Hótel Valhöll er starfrækt yfir sumartímann.

Íbúar Þingvallarsveitar sækja flestir þjónustu í Mosfellsbæ og til Reykjavíkur, en einnig eitthvað á Selfoss. Læknaþjónusta sveitarinnar er að Reykjalundi í Mosfellsbæ. Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur  reka sameiginlegan grunnskóla að Ljósafossi í Grímsnesi, þar er einnig sundlaug. Börnin frá Fellsenda og Stíflisdal, fara í Ásgarðs- og Klébergsskóla í Kjósarsýslu, en það kemur til vegna langra vegalengda og oft erfiðra samgangna. Bókasafn sveitarinnar er á Brúsastöðum.