Skólasóknarreglur

Skólasóknarreglur2018-09-19T13:48:42+00:00
 1. Nemendum ber að mæta stundvíslega í allar kennslu­stundir. Skróp er brot á skólareglum. Geti nemandi ekki sótt kennslustund vegna veikinda eða af öðrum lögmætum ástæðum, ber hann (eða forráðamaður, sé nemandinn ólögráða) ábyrgð á að tilkynna það á skrifstofu skólans fyrir kl. 9:00 sérhvern dag sem um slíkt er að ræða.
  Kennarar skrá mætingu í kennslustund með þessum hætti:

  1. M – mætt(ur)
  2. S – sein(n) eða hverfur úr kennslustund áður en henni lýkur
  3. F – fjarverandi, óháð ástæðum fjarvistar
 2. Ef kennari er ekki mættur eftir að 15 mínútur eru liðnar af kennslustund ber nemendum að hafa samband við ritara/skrifstofu til að kanna fjarveru kennara.
 3. Við lok hvers uppgjörstímabils fjarvista, sem er að jafnaði 3 vikur, skulu fjarvistastig nem­enda talin saman og birt þeim og forráðamönnum þeirra. Uppgjörstímabil eru tilgreind á skóladagatali.
  Nemendum ber að fylgjast sjálfir með mætingastöðu sinni í upplýsingakerfi framhaldsskólanna, Innu.
  Forráðamenn ólögráða nemenda hafa aðgang að Innu og geta þar fylgst með stöðu barna sinna auk þess sem þar geta þeir tilkynnt um veikindi.
 4. Forföll vegna veikinda
  1. LÖGRÁÐA NEMENDUR: Forföll vegna veikinda, skulu ekki fjölga fjarvistastigum nemanda ef hann leggur fram vottorð frá heilsugæslustöð eða lækni, yfir alla veikindadaga, innan viku frá síðasta veikindadegi.
  2. ÓLÖGRÁÐA NEMENDUR: Forföll vegna veikinda skulu ekki fjölga fjarvistastigum nemanda ef forráðamaður hans tilkynnir um veikindi hans í upphafi hvers kennsludags. (Sjá nánar um fyrirkomulag veikindatilkynninga í viðauka við reglurnar).
 5. Niðurfelling fjarvistastiga vegna annars en veikinda:
  1. Sé nemandi frá skóla vegna brýnna persónulegra erinda getur hann (eða forráðamaður hans, sé hann ólögráða) sótt um niðurfellingu fjarvistastiga.  Slík umsókn skal vera skrifleg og skilað fyrirfram, nema sérstakar ástæður hamli.
  2. Nemendur geta sótt um niðurfellingu fjarvistastiga ef þeir komast ekki í skóla vegna veðurs, ófærðar eða annarra orsaka sem þeir bera enga ábyrgð á.
  3. Skólameistari getur fellt niður fjarvistastig fyrir kennslustundir sem nemendur missa af vegna starfa fyrir skólann, námsferða eða þátttöku í menningarlífi og íþróttum.
  4. Stallari einn getur sótt  um leyfi til skólameistara vegna starfa nemenda fyrir nemendafélagið. Leyfi á grundvelli slíkrar beiðni er ekki veitt nema vegna nemenda með meira en 90% mætingu.
 6. Mæting og raunmæting
  Fari mæting/skólasóknarhlutfall* nemanda undir 86% (85,50%) einhvern tíma eftir 1. tímabil annarinnar, telst hann vera búinn að segja sig úr skóla.  Þetta felur í sér að hann hverfur úr skóla án próftökuréttar og telst ekki lengur nemandi við skólann.Sé raunmæting** nemanda undir 76% (75,50%) við lok annar hefur hann fyrirgert rétti sínum til náms á næstu önn, en fær að ljúka annarprófum.*  skólasókn eftir að fjarvistastig vegna lögmætra forfalla hafa verið dregin frá.**skólasókn áður en lögmæt forföll eru dregin frá.
 7. Þjáist nemandi af langvinnum sjúkdómi ber honum að skila inn vottorði frá sérfræðingi á viðkomandi sviði, þar sem fram koma helstu upplýsingar um sjúkdóminn og möguleg áhrif hans á skólasókn. Hann fær þá niðurfelldar fjarvistir vegna viðkomandi sjúkdóms eða hömlunar, með eftirtöldum skilyrðum:
  1. Raunmæting hans má ekki vera undir 76% (75,50%) við lok annar.
  2. Hann skal ávallt skila inn skriflegri skýrslu um þá tíma sem hann gat ekki sótt skólann, jafnskjótt og hann kemst í skóla aftur eftir fjarvistir vegna viðkomandi sjúkdóms.
  3. Verði nemandi uppvís að því að misnota opið vottorð eins og hér er um að ræða, áskilur skólinn sér rétt til hætta að taka það til greina.
 8. Nemandi sem stríðir við langvarandi heilsuleysi eða annað sem kemur í veg fyrir að hann fái sótt skóla með reglubundnum hætti, getur sótt um undanþágu frá  þessum reglum til skólameistara.
 9. Nemandi sem á stöðugt í vanda með að uppfylla skólasóknarreglur og er með skólasóknarhlutfall undir 86% eða raunmætingu undir 76% við lok skólaárs, á ekki trygga skólavist næsta skólaár.
 10. Reglur þessar gilda fyrir alla reglulega nemendur skólans. Óski nemandi að stunda nám utanskóla getur hann sótt um það við upphaf skólaárs eða annar.
 11. Endurskoðaðar reglur voru samþykktar í skólaráði í janúar 2015 og taka ákvæði þeirra gildi við upphaf skóla haustið 2015.

Viðaukar um framkvæmd reglnanna:

A. Bókun vegna 6. greinar:

Áminningarferill vegna framkvæmdar þessarar greinar:

 1. LOK 1. TÍMABILS: Nemandi sem fer undir 86% skólasóknarhlutfall eftir fyrsta tímabil skólasóknar er kallaður í viðtal og fær alvarlega viðvörun. Forráðamönnum ólögráða nemenda er tilkynnt um stöðu mála.
 2. LOK 2. TÍMABILS: Verði hann enn undir ofangreindu hlutfalli skólasóknar í lok 2. tímabils fær hann tilkynningu um að hann sé orðinn utanskóla, en getur þá sótt um, með formlegum hætti, að fá tækifæri í 1 tímabil til að bæta sig.
 3. LOK 3. TÍMABILS: Verði enn hið sama uppi á teningnum í lok 3. tímabils er ekki um að ræða neinar frekari tilslakanir og fer þá eins og fram kemur í 5. grein: nemandinn hverfur úr skóla án próftökuréttar og telst ekki lengur nemandi við skólann.
 4. LOK annar: Sé mæting undir 86% telst nemandi hafa sagt sig úr skóla og kemur ekki á næstu önn. Sé raunmæting undir 76% telst nemandi sömuleiðis vera búinn að fyrirgera rétti sínum til frekara náms við skólann og kemur ekki á næstu önn.  Í báðum tilvikum fær nemandinn þó að ljúka annarprófum.

 

B. Tilkynningar forráðamanna vegna veikinda.

Forráðamenn bera ábyrgð á því að tilkynningar um veikindi berist skrifstofu skólans að morgni hvers dags sem nemandinn er veikur.
Upplýsingar um rétt vinnubrögð við tilkynningu um veikindi eða leyfi má finna hér.

C.  Lögráða nemendur geta veitt aðstandendum sínum, t.d. foreldrum, umboð til að sjá um veikindatilkynningar. Þetta umboð þurfa þeir að staðfesta með undirskrift sinni eða með öðrum óvéfengjanlegum hætti.  Umboðið felur í sér að viðkomandi gegna sama hlutverki gagnvart skólanum og forráðamenn ólögráða nemenda – með sömu réttindi og skyldur.

 

Uppfært í október 2017