Körfubíll á slökkviliðsæfinguÞað er nú einu sinni svo að við þurfum ávallt að vera á varðbergi gagnvart þeirri hættu sem getur stafað af eldi eða annari vá sem getur steðjað að. Hingað til hefur það verið venja að á fyrsta vistafundi á Kös, sem er heimavist nýnema þá er sýnd mynd um bruna í herbergi. Meðan á sýningu myndarinnar stendur hefur Pálmi húsbóndi farið yfir hvernig þau eigi að bregðast við ef upp komi eldur í húsinu. Það tekur mun styttri tíma en margir halda frá því kerti leggst á hliðina í sófa þangað til verður eldsprenging í herberginu og þetta er því bæði fróðlegt og nauðsynlegt að fara yfir strax í upphafi. 

Í skólahúsinu sjálfu eru svo rýmingaræfingar einu sinni á ári og stundum gert í samvinnu við slökkviliðið á staðnum sem er hluti af Brunavörnum Árnessýslu.

Síðastliðið miðvikudagskvöld var svo gengið enn lengra og æfðir margir hlutir í einu. Það var gert með þeim hætti að brunakerfið á Kös var ræst og húsið rýmt eins og rýmingaráætlun gengur út á. Þeir íbúar vistarinnar sem voru heima fóru þá út í skóla þar sem vistarverðir tóku manntal og fundu út hverja vantaði og létu húsbónda vita.

Um leið og kerfið var gangsett hringdi 112 út æfingu hjá slökkviliðinu á Laugarvatni sem kom strax á staðinn og tók til við fyrstu aðgerðir, en það var reykköfun til að ná í þá sem höfðu boðið sig fram sem sjúklinga og lágu á setustofu eða í herbergjum auk þess að byrja að sprauta á ímyndaðan eld. Boðunin náði einnig til slökkviliðsins í Reykholti, á Flúðum og í Árnesi. Þá komu einnig nokkrir frá Selfossi meðal annars á körfubíl sem var reyndur við björgun út úr herbergjum. Af hálfu slökkviliðs gekk þetta mikið út á vatnsöflun og tímatöku en við vitum nú mun betur hvernig við spilum úr þeim mannskap og tækjabúnaði sem kæmi ef á þarf að halda. Allir viðbragðsaðilar lögðu jafnt af stað frá sínum heimastöðvum þannig að æfingin var í rauntíma að öllu leyti. 

Æfingin heppnaðist vel, nemendur eiga hrós skilið fyrir góða þátttöku í öllu og slökkviliðið lærði margt, bæði hvað varðar flutningsgetu veitukerfis á Laugarvatni og fleira sem lítur að vatnsöflun. Skólinn bauð slökkviliðsmönnum upp á kaffi og skúffukökur í matsal á eftir meðan farið var yfir æfinguna og honum eru færðar bestu þakkir fyrir.

Pálmi Hilmarsson

Myndir (Höfundar mynda eru þeir Hafsteinn Veigar Ragnarsson (flestar) og Pálmi Hilmarsson (nokkrar símamyndir)

Viltu deila...
Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter