Um danshljómsveitir og kvartetta í ML  1958 – 1968
Stoppað í göt í bókinni Menntaskólinn á Laugarvatni – forsaga, stofnun og saga til aldamóta

 

 Hjomsveitin_Hrafnar_1964-65

Hljómsveitin Hrafnar 1964-65.

Mynd tekin við á sama leiksviði og myndin bls. 178 í sögu ML.

 

Öflugar skóladanshljómsveitir voru snar þáttur félagslífs Menntaskólans á Laugarvatni um árabil. Bókin “Menntaskólinn á Laugarvatni – forsaga, stofnun og saga til aldamóta”  gerir félagslífinu ágæt skil. Á bls. 177-179 er sagt frá dansleikjamenningu í ML og koma skólahljómsveitir  þar við sögu. Þar eru nefndar eru hljómsveitirnar Monosystem; Hrafnar;  Vinir og vandamenn; Yoga;  Frostaveturinn mikli 1918;  Bobo Péturs og fjölskylda;  og Lotus, sem sögð er hafa öðlast landsfrægð. Þessar hljómsveitir störfuðu á árunum 1964 – 1974 (e.t.v. hefur Lotus starfað lengur). Myndir eru birtar af Lotus, Hröfnum og Monosystem.

 

Á bls. 177 segir m.a. “Miklu máli skipti fyrir almennt dansleikjahald að fyrir væru í skólanum nokkrir liðtækir hljóðfæraleikarar, enda þótt hljómsveitir væru aðkeyptar þegar mikið stóð til.” Þetta eru orð að sönnu. En bókarhöfundur heldur áfram: “Veturinn 1961-1962 var til dæmis skortur á kunnandi mönnum, en eftir talsvert basl tókst að skrapa saman í sveit nokkrum héraðsskólanemum og einum eða tveimur menntskælingum. Háði það engu að síður dansskemmtunum á því skólaári.”  (Heimild: Annáll 1961-1962 í Skræðu.)

Nú kann að vera að menn beri sig svo aumlega þetta skólaár vegna þess að þeir hafi verið orðnir góðu vanir. Í nemendaskrá bókarinnar er Róbert Ingimar Eydal frá Akureyri (f.1936) sagður hafa verið nemendi við skólann 1960-1961. Þess er þó jafnframt getið í umræddri bók (bls.93) að hann hafi leikið á píanó í útvarpsþætti sem tekinn var upp á segulband í skólanum og útvarpað á bindindisdegi 30. janúar – varla seinna en árið 1958, því heimildin er skólablaðið Mímisbrunnur það ár. Því er ljóst að dvöl Ingimars á Laugarvatni var lengri en tiltekið er í nemendaskránni í bókinni. Öllu verra er að það kemur ekki fram að hann hafi leikið fyrir dansi í ML. Þó hljómsveitin Lotus hafi orðið fræg þá skákar hún varla Ingimar Eydal í sögu íslenskra hljómsveita.

 

Sigurður Rúnar Símonarson var nemandi við skólann 1958-1962 og lauk þaðan stúdentsprófi. Við Sigurður erum nú vinnufélagar, kennum báðir við Stóru-Vogaskóla. Við komumst að því að við höfum báðir verið í ML og báðir leikið þar fyrir dansi.

Að eigin sögn lék Sigurður Rúnar í hljómsveit skólans meira og minna öll árin sín þar (1958-1962), ýmist á gítar eða trommur eftir því hvað vantaði helst. Ingimar Eydal lék í sömu hljómsveit flest árin, ýmist á píanó eða klarinett og stöku sinnum á harmoniku. Auk þeirra lék Baldur Ólafsson (faðir Rósu Baldursdóttur í Tjarnarkvartettinum) á píanó (Ingimar þá á klarinett) og Pétur Garðarsson á trommur. Þeir félagar léku dægurlög sem þá voru vinsæl og auk þess djass. Ekki er ólíklegt að þessi hljómsveit hafi notast við sömu kvikmyndarvélarmagnara og hljóðnema og hljómsveitin Hrafnar nokkrum árum síðar.

 

Ég fann ekki aðrar heimildir um dvöl Ingimars Eydal á Laugarvatni þessi ár. Rúmu ári eftir að ég birti fyrstu útgáfu þessarar greinar á netinu fékk ég tölvubréf frá Akureyri frá Ástu Sigurðardóttur, ekkju Ingimars sem hafði fundið þessa grein mína á netinu og segir m.a.:

Ingimar lauk tónmenntakennaraprófi frá K.Í. vorið 1957. Hann langaði að afla sér frekari menntunar en á þeim tíma bættu menn engu við heldur þurfti hann að taka landspróf til að eiga möguleika á menntaskólanámi, hann innritaðist í Héraðsskólann á Laugavatni um haustið og deildi þar herbergi með Þorsteini Eggertsyni úr Keflavík, en það varð minna úr námi ,hann fór að kenna við barnaskólann og svo var sífellt kallað vegna hljómsveitavinnu hér og þar og hann yfirgaf skólann áður en kom að prófum. En það var skólahljómsveit og mikið músíklíf, eftir, bæði því sem ég man að hann sagði mér og hef lesið eftir Þorstein, þvældist þess hljómsveit víða um Suðurland og lék fyrir dansi auk skólaballa,  og klarinettið kom við sögu eftir gömlum myndum að dæma.  …

1987 var sett upp sýning á vegum Ólafs Laufdal sem hét Stjörnur Ingimars Eydal í 25 ár. Í sýningarskrá segir Þorsteinn Eggertsson eftirfarandi:

“Snemma á rokköld,nánar tiltekið haustið 1957 þegar sputnik 1. var skotið út fyrir gufuhvolf jarðar,urðum við Ingimar skólabræður, bekkjarbræður og herbergisfélagar á héraðsskólanum að Laugarvatni.

Að sjálfsögðu var hann látinn stjórna skólahljómsveitinni, því þótt hann væri ekkert að flíka hæfileikum sínum vissu margir hver pilturinn var, Það var einmitt þá sem ég byrjaði að syngja opinberlega. Hann segir líka: Einu sinni kom hann með vel mótaða hugmynd af hryllingsleikriti og hafði samið drungalega músik við sem hann lék svo að sjálfsögðu sjálfur, þegar leikritið var sýnt á árshátíð skólans.”

Ingimar tók síðan landspróf utan skóla frá Laugum vorið 1959 og las 1.bekk utan skóla við MA. Síðan héldum við bæði í  2, bekk ML næsta vetur   þ.e. 1960-1961. Á þessu námi varð svo óvæntur endir, því snemma á næsta skólaárið veiktist Ingimar og var með annan fótinn á spítölum í Rv. og var síðan ráðlagt að snúa frá námi um áramót því hann hafði veikst af berklasmitun. Þegar hann náði heilsu var hljómsveitin orðin til og við áttum von á barni svo ekki var aftur haldið til Laugavatns. En á þessu góða vetri var mikið mússiserað eins og Siggi Sím  lýsir svo réttilega , Ingimar var með harmoniku með sér í þetta sinn og hún notuð á gangaböllum og oft marseruðum við um skólann með nikkuna í farabroddi  og héldum jasskvöld o.m.fl. …

Ég fór að velta fyrir mér hvernig hefði verið með þessa danshljómsveit veturinn 60-61, man að þar var Baldur, sem þú nefnir, á piano og Sigurður Símonarson ,einhverntíman tók lagið með þeim herbergisfélagi minn Hildigunnur Hlíðar. Ingimar lenti í því við busavígslu að það brotnaði bein í hægri hendi og það liðu  margar vikur sem hann gat ekki spilað á piano,  einbeitti hann sér því meir að allskonar tónlistarkynningum og svo þessum kvartett , sem þú minntir mig á, og minnir helst að hafi bara verið nokkur góður.

(Úr tveimur tölvubréfum frá Ástu Sigurðardóttur í sept. og okt. 2009)

 

Þegar Ingimar var á Laugarvatni var hann orðinn mjög virkur og áhrifamikill í íslenskum dægurlagaheimi. Ber þar fyrst að nefna Atlantic-kvartettinn sem starfaði árin1958-1961, aðallega á Akureyri og Ingimar veitti forystu. Fyrstu tvö árin var Atlantic reyndar sumarhljómsveit sem kemur heim og saman við að Ingimar hafi þá haft vetursetu á Laugarvatni. Á vefnum  www.tonlist.is segir m.a. um Atlantic:

“Í þessum kvartett sem stofnaður var af Ingimar Eydal, píanóleikara og hljómsveitarstjóra, voru auk þeirra Finnur Eydal bróðir Ingimars sem lék á klarinett og  saxófón, Sveinn Óli Jónsson sá um trommuslátt, Edward Kaaber lék á gítar og síðast en ekki síst bættist í hópinn Helena Eyjólfsdóttir sem sá um sönginn ásamt Óðni.

Atlantic kvartettinn var sumarhljómsveit fyrstu tvö árin sem hún starfaði, en var lögð niður  yfir vetrarmánuðina og héldu þá meðlimir hennar til annarra starfa. En seinni tvö árin sem kvartettinn lifði var honum haldið út árið um kring. Aðalvígstöðvarnar voru Alþýðuhúsið á Akureyri sem var annað tveggja danshúsa bæjarins á þessum tíma.
Strax fyrsta starfssumarið barst hróður kvartettsins suður til Reykjavíkur og var það ekki síst fyrir tilstilli Helenu sem þegar var orðin landsfræg söngkona með lög eins og Hvítir mávar að baki, sem og Finns sem vakið hafði athygli nokkrum árum áður fyrir að handleika klarinett og baríntón saxófón sem ekki voru algeng hljóðfæri dægurlagahljómsveita.

Atlantic kvartettinn var fenginn til að koma suður og leika á hljómleikum sem Félag íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) efndi til í Austurbæjarbíói þann 4. október 1958. Þessi suðurferð jók hróður kvartettsins og reyndar svo að ári síðar var honum boðið að koma fram öðru sinni, á sama stað fyrir tilstilli sömu aðila, á miðnæturhljómleikum ásamt fjölda annarra sveita og listamanna. Markmiðið með þeirri uppákomu var að kynna það nýjasta í íslenskri dægurlagatónlist. Atlantic kvartettinn kom, sá og sigraði, því í kjölfarið óskaði útgáfufyrirtæki Tage Ammendrups, Íslenzkir Tónar, eftir því að  hljóðrita efni með þeim til útgáfu. Voru því á árunum 1959-1960 gefnar út þónokkrar plötur með kvartettnum sem reyndar voru alla jafnan skrifaðar á söngvarana, og því miður hefur í tímans rás orðið svo að nafn kvartettsins er varla tengt þessu efni lengur, rétt eins og hann hafi aldrei verið til. Staðreyndin er hinsvegar sú að líklega hefðu þessi lög aldrei verið hljóðrituð eða gefin út ef ekki hefði Ingimar Eydal og hljómsveit hans Atlantic kvartettinn komið til, því lagaval og útsetningar voru alla jafnan í höndum Ingimars Eydal. Má í þessu sambandi nefna lög eins og Útlagann og Einsa kalda úr Eyjunum, sem bæði eru meðal þekktustu laga Óðins Valdimarssonar frá þeim tíma sem hann söng með Atlantic.”   http://www.tonlist.is/ViewArtist.aspx?AuthorID=2818

Í ljósi þessa verður að skýra þannig þann “skort á kunnandi mönnum” í danshljómsveit veturinn 1961-62, sem laugvetnskir annálar skýra frá, að Laugvetningar voru góðu vanir hafandi dansað við tónlist Ingimars Eydal og félaga árin á undan.

 

Ég undirritaður var bassaleikari í hljómsveitunum “Mono system”, “Hröfnum” og “Vinum og vandamönnum” í þrjú skólaár, 1964-1967. Ef gætt er að myndum og myndatexta bls. 178 og 179 sést að Monosystem og Hrafnar er sama hljómsveitin, hún breytti einfaldlega um nafn og urðu engar mannabreytingar fyrr en  haustið eftir. Við æfðum oft í viku og spiluðum flestar helgar, oftast í ML, en einnig í Héraðsskólanum, Húsmæðraskólanum og stöku sinnum í samkomuhúsum eða öðrum skólum (m.a. í Skógaskóla undir Eyjafjöllum). Við fengum eitthvað greitt fyrir spilamennsku annars staðar en í ML (hálfgildis atvinnumennska!) og aflaði ég mér vasapeninga með þessari spilamennsku 3 skólaár. Ég var sá eini sem spilaði í aðalhljómsveitinni þessi 3 ár, en flestir voru í tvö ár. Stefán Ásgrímsson, bekkjarbróðir minn í 1. bekk, átti mestan heiður af að hóa saman hljómsveit strax í skólabyrjun 1964 og dreif hljómsveitina áfram þann vetur, en hvarf síðan úr skólanum.

Næsta skólaár héldum við Jens Þórisson (söngur og gítar) og Páll V. Bjarnason (hljómborð) áfram, en Jón Páll Þorbergsson kom á trommurnar (enda Guðmundur Harðarson þá útskrifaður íþróttakennari) og Atli Guðmundsson tók við af Stefáni á gítar. Báðir nýliðarnir voru úr bítlabænum Keflavík.

Þriðja árið hét hljómsveitin Vinir og vandamenn. Þá kom Einar Örn Stefánsson á trommurnar, Sverrir Kristinsson og Hafsteinn Guðfinnsson á gítara en Atli gerðist söngvari.

Síðasta vetur minn á Laugarvatni lék ég með hobbíhljómsveit sem æfði lítið og kom sjaldan fram, enda var hljómsveitin Yoga tekin við sem danshljómsveit skólans, en Einar Örn, Hafsteinn og Sverrir (sem varð nú bassaleikari) léku í henni ásamt fleirum.

 

Gefum nú Einari Erni orðið:

Yoga (67-68) var þannig skipuð: Atli Guðmundsson, Einar Örn Stefánsson, Ólafur Örn Ingólfsson, Halldór Gunnarsson (hljómborð) og Sverrir Kristinsson. Hér voru samankomnir þrír af Suðurnesjum, Atli, Sverrir og Ólafur. Ég kom frá Vestmannaeyjum og Halldór úr Hveragerði, en hann átti síðar eftir að gera garðinn frægan með Þokkabót. Atli sá að mestu um sönginn þessari sveit.

Veturinn 68-69 hét skólahljómsveitin Frostaveturinn mikli 1918 og þar voru þeir Guðmundur Benediktsson frá Selfossi (lengi söngvari í Mánum) söngvari og gítarleikari, Atli Guðmundsson, Ólafur Örn Ingólfsson, Halldór Gunnarsson og Bjarni F. Karlsson frá Keflavík (trommur).

Skólahljómsveit veturinn 69-70 var Bóbó Péturs og fjölskylda. Þar voru innanborðs Halldór Gunnarsson, Viðar Jónsson (Reykvíkingur), Ólafur Örn Ingólfsson, Þórólfur Guðnason (Vestmannaeyingur) og Smári Geirsson (Neskaupstað) var trommari.

(Úr tölvubréfi frá Einari Erni Stefánssyni í sept. 2009).

 

Á þessum árum voru vinsælustu og ferskustu hljómsveitirnar Beatles, Rolling stones, Hollies og Kinks, og svo Hljómar og hinar íslensku “bítlahljómsveitirnar”. Við reyndum að vera með nýjustu lögin og þýddi þá lítið að treysta á útvarpið eða plötubúðir því samgöngur við landið voru mun rólegri en nú tíðkast. Við hlustuðum mikið á vinældalistana í Radio Luxemburg og Radio Caroline og hljóðrituðum á segulband til að læra lög og skrifa upp texta. Það má nærri geta hvernig hlustunarskilyrðin og hljómgæðin voru. Þetta var mikil áskorun að skilja enska tungu og heyra rétta hljóma og laglínur. Nótur voru aldrei notaðar í þeim hljómsveitum sem ég spilaði í, enda kunnu fæstir okkar að lesa þær, hvað þá skrifa. Við hlustuðum einnig á nýjar plötur og ég man t.d. að við æfðum helming laganna á einni Kinks-Lp-plötunni, enda einföld og hrá músík sem hæfði okkar smekk, kunnáttu og hljóðfærakosti.

 

Nútíma hljómsveitarfólk myndi hlæja sig máttlaust ef það heyrði í og sæi græjurnar sem við höfðum til umráða fyrsta ár Mono og Hrafna. Söngkerfið var lítill kvikmyndavélarmagnari með einum 10-12 tommu hátalara og eini hljóðneminn stór málmhlunkur líkur grilli á drossíu. Slíkir hljóðnemar sjást enn í dag í kvikmyndum frá 4. og 5. áratugnum.  Líklega hefur eitthvað af þessu drasli verið frá hernum. Ég þótti góður með heldur stærri kvikmyndavélarmagnara fyrir bassann, en albesti magnarinn var 40 W magnari með tveimur 12 tommu hátölurum sem Stefán Ásgrímsson átti, en hann var íslensk framleiðsla frá radíóverkstæðinu Hljómi. Toppurinn var þegar Stebbi fékk lánað ekkótæki hjá Bassa í Glóru, vini sínum. Að sjálfsögðu voru allir magnarar með lömpum í þá tíð, en transistorar voru að koma á markað um þetta leyti. Svo notuðum við hluta af þénustunni fyrir spilamennskuna til að fjárfesta í hljóðfærum. Fyrsta árið lékum við Jens á lánshljóðfæri sem Stefán útvegaði, líklega frá Selfossi. Síðan keypti ér mér bassa af Futurama-gerð (ég spila enn á hann!) og 40 w magnara frá Hljómi með tveimur 12” hátölurum. Árið 1967 keypti skólinn nokkuð öflugt magnarasett fyrir hljómsveit skólans sem næstu hljómsveitir nutu góðs af.

 

Á þessum árum þótti sjálfsagt að skólinn ætti sér hljómsveit og við nutum mikils skilnings og stuðnings Jóhanns S. Hannessonar skólameistara. Hann leyfði okkur að æfa oft í viku í samkomusalnum í kjallara aðalbyggingarinnar á lestrartíma, jafnvel þótt hávaðinn í okkur bærist upp í skólastofurnar á næstu hæð fyrir ofan þar sem nemendur áttu að njóta næðis við lærdóminn. Hugsanlega hefur Jóhann verið svo umburðarlyndur við okkur því hann hafi hálf skammast sín fyrir að geta ekki boðið upp á tónlistarkennslu eftir að Þórður Kristleifsson lét af störfum skömmu áður.

 

Þau ár sem hér um ræðir var engin söngkennsla við ML – nema hvað sá merki maður, Róbert Abraham Ottósson, kom einn dag og kenndi söng á sal skólans þar sem allir nemendur voru samtímis, rúmlega 100 talsins (leiki aðrir það eftir!). Síðan þá kann ég íslenskan tvísöng (Ísland farsælda frón) og vals þar sem maður á að lyfta hægri fæti þegar sagt er ekki. Ég man enn bæði lag og texta (vonandi rétt), hef þó aldrei heyrt það annars staðar:

Hann Þórarinn kenndi mér þennan vals

það var eftir hönum.

Og aldrei skal ég eiga þann mann

sem ekki kann að dansa hann.

 

Hönum er ekki prentvilla, það á að syngjast þannig.

 

Annað gat í sögu ML: Söng-kvartettarnir

Söngkvartettar voru mjög vinsælir í Ríkisútvarpinu á 7. áratugnum og MA-kvartettinn þar fremstur í flokki, félagar hans þá löngu útskrifaður úr Menntaskólanum á Akureyri. En það voru líka söngvkartettar í ML þó svo þeir hafi ekki orðið jafn frægir í útvarpinu – og komust ekki einu sinni í ritaða sögu ML!

Að sögn Sigurðar Rúnars var um 1960 söngkvartett í ML sem fór eitt sinn suður til að syngja í útvarpsþætti hjá Gesti Þorgrímssyni. Gestur Steinþórsson var fyrsti tenór, áðurnefndur Sigurður Rúnar Símonarson annar tenór, Þórhallur Hróðmarsson frá Hveragerði var fyrsti bassi og Sigurjón Jónsson annar bassi. Ingimar Eydal æfði kvartettinn og lék með.

Að sögn Jens Þórissonar (síðar augnlæknis) var þannig skipaður kvartett 1963-1964: Gestur Steinþórsson fyrsti tenór, Skúli Magnússon annar tenór, Jens Jensson fyrsti bassi og Jens Þórisson annar bassi. Kristján Sigurjónsson lék með á píanó og æfði raddirnar.

Næsta skólaár, 1964-65 varð mikil endurnýjun. Þá varð Sveinn Ingvarsson fyrsti tenór, Vignir Georgsson 2. tenór, Sigurður Jakobsson fyrsti bassi og Jens Þórisson áfram annar bassi og Kristján áfram meðleikari.

Veturinn 1965-66 var sami mannskapur nema Bjarni Jónatansson tók við á píanóið og Kristján gerðist annar bassi í stað Jens. Kvartett þessi söng nokkrum sinnum utan skólans og eitthvert árið í útvarpsþætti hjá Jónasi Jónassyni.

Þann sama vetur varð til annar kvartett með ögn yngri strákum sem allir útskrifuðust 1968. Þar var Kristján Valur Ingólfsson (síðar prestur) fyrsti tenór, Þorvaldur Nóasson (síðar steypufræðingur í Noregi) annar tenór, undirritaður, Þorvaldur Örn, var fyrsti bassi og Örn Lýðsson (síðar tölvunarfræðingur) var annar bassi. Bjarni Jónatansson lék með og æfði þennan kvartett einnig. Þessi kvartett var eini kvartettinn árið eftir.

 

Ég kann þessa sögu söngkvartetta ekki lengri. Mér finnst merkilegt við kvartettana að þeir nutu lítið sem ekkert leiðsagnar tónlistarkennara, enda engum slíkum fyrir að fara í skólanum eftir að Þórður Kristleifsson hætti. Hann kann þó að hafa átt þátt í að koma þessari bylgju af stað. Hljómsveitirnar björguðu sér alveg án leiðsagnar lærðra tónlistarmanna.

 

Ég fékk góða aðstoð Sigurðar Rúnars Símonarsonar og Jens Þórissonar við að taka þetta saman. Mjög er farið að fenna í þessi spor og hætt við að ég fari ekki rétt með allt og kynni þeim þakkir sem gæti leiðrétt einhverjar rangfærslur. Það kom reyndar á daginn því rúmu ári eftir að ég birti þessa grein fékk ég verðmæta viðbót frá Ástu Sigurðardóttur, ekkju Ingimars Eydals, og leiðréttingar og viðbætur frá Einari Erni Stefánssyni sem spilaði í skólahljómsveitum í lok 7. áratugsins.

 

Þorvaldur Örn Árnason,

líffræðingur og kennari, stúdent frá ML 1968.

 valdurorn@simnet.is

Fyrst sett á vefinn vorið 2008.

Aukið og endurbætt haustið 2009.

 

 

Viltu deila...
Share on Facebook
Facebook
Tweet about this on Twitter
Twitter